Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 7,0% og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 8,25%. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 8,5% og daglánavextir í 10,0%.

Þetta var tilkynnt klukkan níu í morgun. Greining Íslandsbanka spáði lækkun vaxta um 0,75 prósentur. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar 17. mars síðastliðinn segir að haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar.

„Þessi sama setning hefur verið í yfirlýsingum peningastefnunefndarinnar frá því í nóvember í fyrra en á þeim tíma hefur nefndin lækkað vexti á viðskiptareikningum innlánsstofnanna úr 9,5% í 7,5% og vexti á lánum gegn veði til sjö daga úr 12,0% niður í 9,0% enda hefur gengi krónunnar styrkst nokkuð á tímabilinu og verðbólgan hjaðnað," segir Greining Íslandsbanka í umfjöllun sinni um vexti Seðlabankans sem gefin var út 3. maí síðastliðinn.