Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 4,75% og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 6,0%. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 6,25% og daglánavextir í 7,75%.

Þetta er minni lækkun vaxta en markaðsaðilar höfðu spáð. Gerðu flestir ráð fyrir að stýrivextir myndu lækka um eina prósentu þó einhverjir höfðu varann á sér og spáðu 0,75 prósentum. Greiningardeild Arion banka var einn af þeim sem spáði lækkun um eina prósentu. Rökin sem greiningardeild setti fram voru meðal annars þessar:

„ Peningastefnunefnd var samhljóða um 100 punkta vaxtalækkun á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í ágúst sl. Að okkar mati verður jafn stórt skref tekið á næsta fundi nefndarinnar á miðvikudaginn, enda eru verðbólguhorfur hagfelldar, krónan hefur haldið áfram að styrkjast og skuldatryggingarálag á íslenska ríkið hefur lækkað. Þessu til viðbótar reyndust landsframleiðslutölur á 2. ársfjórðungi lakari en vænst var til. Einnig er útlit fyrir að bankakerfið standi traustari fótum eftir úrskurð Hæstarréttar um gengistryggð lán heimilanna. Óvissa um áhrif gengislána á bankakerfið hefur undanfarið verið meðal þeirra atriða sem hafa sett nefndinni skorður," sagði greiningardeild Arion.