Bankastjóri seðlabankans í Dallas, Richard Fisher, sem jafnframt á sæti í vaxtaávörðunarnefnd bandaríska seðlabankans, segir efnahagslífinu stafa meiri hætta af verðbólgu heldur en lánsfjárkreppu á fjármálamörkuðum.

Í ræðu sem hann flutti á efnahagsráðstefnu í San Francisco í gær varaði hann einnig við yfirvofandi krísu í ríkisfjármálum landsins: Fyrirsjáanlegt væri að ríkisútgjöld þyrftu að aukast umtalsvert á næstu árum til að standa straum af greiðslum til sjúkra- og almannatrygginga. Slíkt gæti dregið úr áhrifamætti peningastefnunnar til að halda verðbólgu í skefjum.

Fisher, sem hefur gagnrýnt róttækar vaxtalækkanir seðlabankans, segist vænta þess að bankinn breyti um stefnu og hækki stýrivexti ef verðbólguvæntingar almennings fara hækkandi. Fisher hefur í þrígang greitt atkvæði gegn vaxtaákvörðun seðlabankans og mælt fremur með því að vextir héldust óbreyttir eða yrðu lækkaðir minna.

Hann hefur bent á að tímabundið aðgengi banka að skammtímafjármagni hjá seðlabanka landsins virðist vera betur til þess fallið að leysa vandræðin á fjármálamörkuðum, í samanburði við hefðbundnari aðgerðir eins og vaxtalækkanir.

Ef verðbólguhorfur, og þá sérstaklega verðbólguvæntingar almennings, halda áfram að versna á ég von á því að peningastefna seðlabankans taki breytingum -- fyrr heldur en seinna," sagði Fisher.

Fjárfestar eru jafnframt í auknum mæli farnir að búa sig undir þann möguleika að vextir hækki. Ávöxtunarkrafan á tíu ára bandarísk ríkisskuldabréf fór upp fyrir 4% á miðvikudaginn í fyrsta skipti frá því í janúarmánuði, sem gefur til kynna að fjárfestar séu farnir að veðja á að hækkandi olíuverð muni að endingu knýja seðlabankann til þess að hækka stýrivexti síðar á árinu.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .