„Hvetja þarf til sparnaðar og sigta út þá aðila sem hafa ekki sýnt ráðdeild í rekstri og viðskiptum. Vaxtalækkanir seðlabanka víða um heim geta ekki staðist til lengdar. Ég veit að íslenskar skuldir hafa iðulega haft mikla ávöxtun, en af einhverri ástæðu hafa Íslendingar lengi haft efni á að borga þær skuldir. Allt þar til íslensk skuldabréf urðu það vinsæl, með tilheyrandi gengisstyrkingu, að íslensk heimili og fyrirtæki hófu að taka lán í erlendri mynt til að komast hjá því að borga hávexti af íslenskum lánum. Þannig að staðan var orðin sú að íslenska þjóðarbúið tók lán í erlendri mynt til að standa undir háum vaxtagreiðslum í innlendri mynt. Þetta var einn stór lánahringur sem gat ekki staðið undir sér.“

Þetta segir Peter Schiff, forstjóri verðbréfamiðlunarfyrirtækisins Euro Pacific Capital í samtali við helgarblað Viðskiptablaðsins. Schiff er tíður viðmælandi í bandarískum sjónvarpsþáttum sem fjalla um viðskipti og efnahagsmál, meðal annars á Bloomberg, Fox Business og CNBC.

„Ísland þarf einfaldlega að draga úr útgjöldum hins opinbera því að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er hið háa vaxtastig meðal annars orsakað af stórauknum umsvifum ríkisins og stýringu útlánavaxta vegna kaupa á húsnæði. Því þarf að halda vaxtastigi háu um hríð og draga stórlega úr útgjöldum til að skapa viðskiptaafgang. Lausnin er ekki að taka fleiri lán til að losna úr gryfju sem orsakast fyrst og fremst af skuldum. Leiðin til að fá erlendan gjaldeyri inn í landið er að flytja út vörur og selja þær,“ segir Schiff.

_______________________________________________

Lesið allt viðtalið við Peter Schiff í helgarblaði Viðskiptablaðsins.