Sérfræðingar vestanhafs telja að stýrivextir verði orðnir hærri en 4% á þessu ári og muni haldast þannig út árið 2023. Þetta kemur fram í könnun Financial Times sem gerð var í samstarfi við University of Chicago‘s Booth School of Business.

Í könnuninni, sem var gerð dagana 13. til 15. september, kemur fram að nærri 70% af þeim hagfræðingum sem spurðir voru álits áætla að vextirnir toppi í 4-5%. Nærri 20% telja að vextirnir fari upp í 5-6%, en um 14% áætla að vextirnir hækki upp í um 3-4%.

Bandaríski seðlabankinn hefur nú þegar hækkað vexti um 150 punkta síðan í sumar og eru stýrivextir nú á bilinu 2,25-2,5%. Hann hækkaði síðast vexti um 75 punkta í júlí, en vextirnir voru nálægt núlli í mars.

Peningastefnunefnd bankans fundar í næstu viku og telja sérfræðingar að vextir muni hækka um 75 punkta, þriðja vaxtaákvörðunarfundinn í röð. Yrðu vextirnir þá á bilinu 3-3,25%.

Eric Swanson, prófessor hjá University of California, Irvine, er einn þeirra sem telur að vextirnir toppi í 5-6%. „Ef Seðlabankinn vill hægja á hagkerfinu þurfa stýrivextirnir að vera hærri en kjarnaverðbólgan,“ en kjarnaverðbólgan, sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, nam 6,3% í ágúst.