*

föstudagur, 30. október 2020
Innlent 26. apríl 2020 17:01

Vextir víkjandi bréfs frádráttarbærir

Yfirskattanefnd hefur snúið bindandi áliti sem Skatturinn hafði gefið.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Yfirskattanefnd (YSKN) hefur breytt bindandi áliti Skattsins á þann veg að útgefanda víkjandi skuldabréfs sé heimilt að gjaldfæra vexti af skuldabréfunum. Þar með verða þeir frádráttarbærir frá tekjum.

Félagið, sem er tryggingarfélag skráð á markað, sendi beiðni til Skattsins í febrúar á síðasta ári og óskaði bindandi álits um efnið. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna var því heimilt að fresta greiðslu vaxta af þeim auk þess sem endurgreiðsla höfuðstóls, vaxta og verðbóta á lokagjalddaga var háð samþykki FME.

Að mati Skattsins fólu fjármálagerningarnir í sér eiginfjárframlag en bar ekki einkenni skuldar í skattalegu tilliti. Þar með væru vextirnir ekki frádráttarbærir.

YSKN taldi að ekki yrði ráðið af lýsingu bréfanna að skilyrtar vaxtagreiðslur féllu niður við frestun greiðslu og að ekkert gæfi til kynna að unnt væri að fresta greiðslu vaxta lengur en til lokagjalddaga, það er ekki væri verið að semja á brott hefðbundin vanefndaúrræði kröfuréttarins. Var gjörningurinn álitinn skuld og álitinu því breytt á þann veg sem vátryggingafélagið fór fram á. Því til viðbótar fær félagið málskostnað sinn fyrir nefndinni, 650 þúsund krónur, greiddan úr ríkissjóði.