Flokksráðsfundur Vinstri grænna vill að nú þegar verði ráðist í lagabreytingar til að treysta lagaumhverfi fjármálastofnana, bæta siðferði í íslensku viðskiptalífi og tryggja réttindi almennings í landinu gagnvart yfirgangi fámenns hóps stóreignamanna.

Þessi ályktun flokksins var samþykkt á flokksráðsfundi Vinstri grænna í Reykholti um helgina.

Í ályktuninni kemur fram skerpa þurfi á og fara ofan í „vinnubrögð og aðgerðaleysi“ þeirra stofnana sem sinna eiga eftirlitshlutverki á fjármálamarkaði.

„Hagsmunir almennings eiga ávallt að vera í forgrunni,“ segir í ályktuninni.

Þá segir jafnframt:

„Á undanförnum mánuðum og misserum höfum við horft upp á gríðarlegar eignatilfærslur þar sem fámennur hópur auðmanna hefur í krafti veiks lagaumhverfis og aðgerðaleysis eftirlitsstofnana gengið á hag og eignir almennings.

Í því ástandi sem myndast hefur á fjármálamarkaði eru almenningur og smærri fjárfestar stundum nauðbeygðir til að leggja eigur sínar undir ef þeir vilja verja rétt sinn fyrir dómstólum og koma jafnvel að orðnum hlut þó þeir hafi sigur vegna þess tíma sem það tekur að fá fram niðurstöðu.

Skýrt dæmi um það er sú staða sem eigendur sparisjóðanna í landinu sem verið hafa í félagslegri eigu almennings hafa staðið frammi fyrir.

Hlutverk sparisjóðanna hefur verið að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs í viðkomandi byggðalögum en ekki að hámarka arð einstakra stofnfjáreigenda. Sérstaklega hafa sparisjóðirnir sinnt því mikilvæga hlutverki að veita almenningi og ekki síst minni fyrirtækjum þjónustu.

Því er brýnt að settur sé lagarammi um viðskipti með stofnbréf sparisjóðanna, sem kemur í veg fyrir að örfáir einstaklingar geti sópað til sín stofnbréfum og samfélagseignum þeirra. Viðskipti þar sem lagaumhverfi er óljóst og fjársterkir aðilar geta í krafti eigna sinna gert nánast hvað sem er, er óásættanlegt.“