Fylgi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (VG) er nú minna en fylgi gamla Alþýðubandalagsins, forvera flokksins þegar horft er til síðustu 30 ára.

VG fékk sem kunnugt er 10,9% fylgi í kosningunum í gær og sjö þingmenn kjörna, eftir að hafa fengið 21,7% fylgi í kosningunum 2009 og 14 þingmenn.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan var Alþýðubandalagið að fá um 13-17% fylgi í síðustu kosningum þess flokks. Mest var fylgið árið 1983 undir forystu Svavars Gestssonar þegar flokkurinn fékk 17,3% fylgi. Í næstu þremur kosningum á eftir var flokkurinn með 13-14% fylgi, í öll skiptin undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar. Flokkurinn sat í ríkisstjórn frá árinu 1988 til 1991 en þá var Ólafur Ragnar sem kunnugt er fjármálaráðherra.

Eftir misheppnaða tilraun til að sameina vinstri væng stjórnmálanna fyrir kosningarnar árið 1999, buðu Vinstri grænir fram undir forystu Steingríms J. Sigfússonar. Til stóð að sameina Alþýðuflokkinn, Alþýðubandalagið og Kvennalista undir merkjum Samfylkingarinnar en úr varð að til urðu tveir nýir flokkar, Samfylkingin og Vinstri grænir.

VG fékk 9,1% fylgi í sínum fyrstu kosningu árið 1999 og örlítið minna í kosningunum 2003. Flokkurinn jók þó nokkuð við sig í kosningunum árið 2007 og fékk þá 14,4% fylgi og sem fyrr segir tæplega 22% fylgi í kosningunum í apríl 2009, en þá hafði flokkurinn setið í minnihlutastjórn frá því í byrjun febrúar sama ár.

Hér að neðan má sjá fylgi Alþýðubandalagsins og Vinstri grænna sl. 30 ár.

Fylgi sósíalistaflokka (Alþýðubandalags/VG) sl. 30 ár.
Fylgi sósíalistaflokka (Alþýðubandalags/VG) sl. 30 ár.
© vb.is (vb.is)

Katrín Jakobsdóttir var kjörinn formaður VG á landsfundi flokksins í lok febrúar sl. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, þar sem sjá má fylgi VG í könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsvísindastofnunar Háskólans sl. 12 mánuði að viðbættum niðurstöðum kosninganna í gær, var fylgi flokksins á hraðri niðurleið og hafði verið frá því í sl. haust. Svipaða sögu má segja með fylgi Samfylkingarinnar, eins og fram kom hér á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag , þó svo að fylgistapið hafi byrjað seinna.

Þetta hefur verið mikil rússíbanareið fyrir VG en Katrínu tókst að auka fylgi VG lítillega fyrst eftir að hún tók við formennsku í flokknum. Síðan þá hefur það sveiflast nokkuð og það var ekki fyrr en síðustu dagana fyrir kosningar sem fylgið fór að mælast í takt við það sem síðar varð raunin í kosningunum í gær. Þó svo að flokkurinn tapi um helmingi af fylgi sínu frá síðustu kosningum fór betur en á horfðist í herbúðum VG.

Fylgi VG sl. 12 mánuði skv. könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsv.stofnunar HÍ auk niðurstöðu í kosningum 2013.
Fylgi VG sl. 12 mánuði skv. könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsv.stofnunar HÍ auk niðurstöðu í kosningum 2013.
© vb.is (vb.is)