Vinstri hreyfingin - grænt framboð fagnar fimmtán ára afmæli um þessar mundir. Mikil dagskrá er framundan. Til að mynda er afmælishlaup á sunnudaginn, en bæði Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, og Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður, taka þátt í því. „Þetta hlaup verður svona prófsteinn á það hversu hörð vð erum af okkur," segir Katrín í léttum dúr.

Helgina eftir verður svo hefðbundinn flokksráðsfundur á föstudegi og á laugardeginum verður málþing um líf og samfélag í samtíð og framtíð. „Svo ætlum við að gera okkur glaðan dag um kvöldið og höfum beðið Ara Eldjárn um að segja brandara um Vinstri-græna," segir Katrín.

Katrín segir að eftirminnilegast í sögu VG sé hrunið og ríkisstjórnarþáttakan. „En síðan er búið að vera mjög gaman að taka þátt í að byggja upp hreyfingu," segir Katrín sem gekk til liðs við VG þegar hreyfingin var þriggja ára gömul og var kjörin varafomaður árið eftir.