Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur kært Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans vegna auglýsingar sem félagið birti í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu fyrr í vikunni, til siðanefndar Sambands íslenskra auglýsingastofa (SÍA).

Í tilkynningu frá Andríki kemur fram að aðeins nokkrum klukkustundum eftir að blöðin með auglýsingunni höfðu verið borin í hús, hafi Andríki borist bréf þar sem tilkynnt var að félagið hefði verið kært fyrir tiltækið til siðanefndar SÍA.

Kæran kemur til þar sem VG vill meina að Vefþjóðviljinn hafi, í leyfisleysi, birt mynd af Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG.

Í tilkynningunni kemur fram að frá samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“ í desember árið 2003, og þar til hann varð ráðherra í febrúar 2009, hafði Steingrímur J. Sigfússon formaður VG þegið um 15 milljónir króna í launaauka, vegna frumvarpsins.

„Tilgangur kærunnar er augljóslega að reyna að hindra frekari birtingu auglýsingarinnar, svo þessar upplýsingar komist ekki til vitundar fleira fólks,“ segir í tilkynningunni frá Andríki.

„Andríki, útgáfufélagi Vefþjóðviljans, þykir miður að stjórnmálaflokkur skuli reyna að hindra skoðanaskipti í þjóðfélaginu með þessum hætti. Vinstri grænir auglýsa sjálfa sig fyrir tugi milljóna króna um þessar mundir. Kostnaðurinn við auglýsingaflóð VG er greiddur af almenningi í gegnum ríkissjóð. VG virðist hins vegar ekki þola að lítið áhugamannafélag kynni ákveðnar staðreyndir um formann flokksins fyrir almenningi með mjög hóflegum auglýsingum.“