Vinstri græn mælist með mest fylgi íslenskra flokka eða 27% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur þar á eftir með 24,4% fylgi og er það hækkun um 0,6 prósentustig milli mælinga. Munurinn á milli flokkanna tveggja er þó innan vikmarka og er því erfitt að fullyrða um hvor nýtur meira trausts þjóðarinnar. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunnar sem MMR framkvæmdi dagana 10. til 15. febrúar 2017.

Fylgi Pírata minnkaði um 1,7 prósentustig milli mælinga og er fylgi flokksins nú 11,9%. Framsóknarflokkurinn bætir hins vegar við sig. Fylgi flokksins mældist 9,7% í síðustu könnun og mælist nú 10,7%. Fylgi Samfylkingarinnar mældist 10% í könnun MMR. Viðreisn bætir lítillega við sig milli kannana og mælist nú með 6,2% fylgi. Björt framtíð mældist með 5,4%.

Stuðningur við ríkisstjórnina hækkaði milli mælinga og kváðust 34,9% styðja ríkisstjórnina. Það er 2,3 prósentustiga hækkun frá síðustu könnun.