Vinstri græn mælast stærsti stjórnmálaflokkur á Alþingi með 28,2% fylgi í nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið sem birtist í dag. Næst kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 20,7% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn myndi tapa þriðjungi þingmanna sinna, úr 21 í 14, samkvæmt könnuninni en Vinstri græn myndu hins vegar tvöfalda þingmanna fjölda sinn og fara úr 10 í 20.

Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist stærri en Framsóknarflokkurinn með 9,5% fylgi og fengi 6 þingmenn miðað við 5,5% fylgi Framsóknarflokksins, sem myndi skila flokknum 4 þingmönnum.

Þá bætir Samfylkingin verulega við sig frá síðustu kosningum og mælist með 11% og sjö þingmenn. Björt framtíð og Viðreisn myndu hins vegar falla af þingi og mælast bæði með um 3% fylgi. Píratar og Flokkur fólksins mælast bæði með 9% fylgi í könnuninni sem ætti að skila báðum flokkum 6 þingmönnum.

Könnunin var gerð dagana 2. til 4. október með 1.000 manna símaúrtaki og 1.000 manna netúrtaki. Fjöldi svarenda var 1.083, þar af 591 af neti og 492 í síma. Þáttökuhlutfall var 55%. 61 ætlaði að skila auðu, 24 vildi ekki svara og 12 ætluðu ekki að kjósa.