Vinstri hreyfingin – grænt framboð er stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup og könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Mælist flokkurinn með 28,8% fylgi samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar, en Sjálfstæðisflokkurinn 24,3%. Hvorki Björt framtíð, Viðreisn né Miðflokkurinn næði mönnum á þing. Píratar mælast með 11,8% fylgi, Samfylkingin 7,5%, Framsóknarflokkurinn 7% og Flokkur fólksins 6,5%. Þá mælist Viðreisn með 4,8% fylgi, Miðflokkurinn 4,6% og Björt framtíð 4,3%. Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð dagana 25. – 28. september. Úrtakið var um 2.000 manns en 952 svöruðu, 53% karlar en 47% konur.

Vinstri græn myndu fá 22 þingmenn samkvæmt þessari könnun og Sjálfstæðisflokkurinn 18, en það væru einu tveir flokkarnir sem gætu myndað tveggja flokka stjórn. Píratar fengju átta þingmenn og Samfylking, Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins fimm hver.

Í netkönnun Gallup, sem gerð var dagana 15. til 28. september, mælast Vinstri grænir með 25,4% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkurinn með 23,1% fylgi. Píratar mælast með 10,3%, Flokkur fólksins 10,1%, Framsóknarflokkurinn með 9,9% og Samfylkingin 9,3%. Björt framtíð mælist með 4,6% fylgi og Viðreisn 3,6%. Aðrir flokkar eða framboð mælast með 3,7% fylgi samtals. Alls voru 4.092 í úrtaki og var þátttökuhlutfall 60%. Nær 88% svarenda sögðust gefa upp hvaða flokk þau ætla að kjósa og er það mun hærra hlutfall en hefur verið undanfarið.