*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 17. nóvember 2017 17:05

VG minni en Samfylkingin

Vinstri græn hafa misst fylgi til Samfylkingar, flestir aðrir flokkar standa í stað meðan Flokkur fólksins bætir við sig.

Ritstjórn
Vel fór á með Ingu Sæland formanni Flokks fólksins og Loga Einarssyni formanni Samfylkingar, en báðir flokkarnir hafa bætt ríflega við sig fylgi síðan í kosningunum.

Fylgi Vinstri grænna hefur dalað frá síðustu alþingiskosningum um 3,6 prósentustig og mælist nú 13,0%, en kjósendur flokksins vilja síst Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn, eða 57% þeirra.

Gagnkvæma andúð á ríkisstjórnarsetu mátti jafnframt sjá á milli Pírata og Sjálfstæðisflokks samkvæmt nýrri könnun MMR sem var framkvæmd 14.-17. nóvember 2017. Heildarfjöldi svarenda í könnuninni voru 944 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Á sama tíma og fylgi VG hefur dalað hefur Samfylkingin bætt við sig, og hefur fylgi flokksins aukist úr 12,1% í 16,0%.

Niðurstöður könnunarinnar var sem hér segir:

  • Sjálfstæðisflokkurinn fengi 24,4% en fékk 25,2% í kosningunum.
  • Samfylkingin fengi 16,0% en flokkurinn fékk 12,1% í kosningunum.
  • Vinstri græn fengju 13,0% en fengu 16,9% í kosningunum.
  • Miðflokkurinn fengi 10,5% en fékk 10,9% í kosningunum.
  • Píratar fengju 9,9% en fengu 9,2% í kosningunum
  • Framsóknarflokkurinn fengi 9,5% en fékk 10,7% í kosningunum.
  • Flokkur fólksins fengi 8,4% en fékk 6,9% í kosningunum.
  • Viðreisn fengi 6,5% en fékk 6,7% í kosningunum

Einungis 60% af þeim sem kusu Vinstri græn síðast sögðust myndu kjósa flokkinn aftur ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þá sögðust 15% þeirra sem kusu Vinstri græn síðast ætla að kjósa Samfylkinguna nú og 6% þeirra myndu kjósa Pírata. Þetta gæti gefið til kynna óánægju á meðal kjósenda Vinstri grænna með stöðu stjórnarmyndunarviðræðna segir í fréttatilkynningu MMR um könnunina. 

Þá var einnig áberandi lágt hlutfall, eða 66%, meðal kjósenda Framsóknarflokksins sem sagðist kjósa flokkinn aftur núna. Af kjósendum einstaka flokka var hlutfall þeirra sem sögðust ætla kjósa sama flokkinn aftur núna hæst meðal kjósenda Samfylkingarinnar, en 91% þeirra sögðust styðja flokkinn áfram ef kosið til Alþingis í dag.

Í könnuninni var spurt hvaða flokka kjósendur vildu síst hafa í ríkisstjórn. Af niðurstöðunum að dæma má sjá að stuðningur við stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna er æði mismunandi í baklandi flokkanna. 

Sem dæmi má nefna að á sama tíma og 6% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja síst starfa með Vinstri grænum sögðust 57% kjósenda Vinstri grænna síst vilja hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn - sem gæti verið skýringin á því að 40% kjósenda Vinstri grænna sögðust ekki myndu kjósa þá aftur.

Stikkorð: Alþingi skoðanakönnun fylgi