Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti á fundi sínum í dag yfirlýsingu þar sem minnt er á að þverpólitísk samstaða hefði verið um störf rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndar sem tæki við niðurstöðum úr skýrslu RNA.

Orðrétt segir í yfirlýsingunni sem Árni Þór Sigurðsson þingflokksformaður VG sendi fjölmiðlum í dag: „Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs minnir á að Alþingi samþykkti samhljóða lög um skipan rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefnd sem tæki við niðurstöðum hennar. Þverpólitísk samstaða hefur fram til þessa verið um störf beggja nefndanna.

Þingflokkurinn þakkar þingmannannefndinni fyrir vel unnin störf, ber fullt traust til hennar og lýsir ánægju með vönduð vinnubrögð. Alþingi stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að sjö af níu nefndarmönnum leggja til að mál verði höfðað gegn fyrrverandi ráðherrum og verður nú að axla sína ábyrgð í málinu.

Trúverðugleiki Alþingis er í húfi að málið verði leitt til lykta á málefnalegan og lýðræðislegan hátt, án óþarfa tafa og undanbragða,“ segir í yfirlýsingunni.