Miklar hreyfingar virðast á fylgi stjórnmálaflokkanna þessa síðustu daga fyrir Alþingiskosningarnar sem hófust klukkan 9:00 í morgun, og standa yfir til 10:00 í dag. Frá síðustu könnun MMR á fylgi flokka sem birt var í byrjun vikunnar hefur fylgi Vinstri grænna minnkað um tæp 3 prósentustig og mælist flokkurinn nú, síðasta sólarhringinn, með 16,6% fylgi.

Fylgi Framsóknarflokksins hefur aftur á móti farið vaxandi frá síðustu mælingu og mældist nú 11,7% borið saman við 8,6% í síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 21,3% fylgi en mældist 22,9% í síðustu könnun.

Hér má sjá niðurstöður könnunar MMR:

  • Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist með 21,3% og mældist 22,9% í síðustu könnun.
  • Fylgi Vinstri grænna mældist með 16,6% og mældist 19,6% í síðustu könnun.
  • Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 11,7% og mældist 8,6% í síðustu könnun.
  • Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 12,5% og mældist 13,5% í síðustu könnun.
  • Fylgi Miðflokksins mældist nú 11,4% og mældist 12,3% í síðustu könnun.
  • Fylgi Pírata mældist nú 11,0% og mældist 9,3% í síðustu könnun.
  • Fylgi Viðreisnar mældist nú 8,1% og mældist 5,5% í síðustu könnun.
  • Fylgi Flokks fólksins mældist nú 4,4% og mældist 4,7% í síðustu könnun.
  • Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 2,2% og mældist 1,8% í síðustu könnun.
  • Fylgi annarra flokka mældist 0,9% samanlagt.

Ef könnun MMR sem birtist í gærkvöldi er borin saman við aðrar kannanir síðustu daga, það er Félagsvísindastofnunar , Gallup , Vísis og Zenter sést að þó samhljómurinn milli kannananna sé nokkur, geti munurinn verið þónokkur.

Þannig mælist Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn, áberandi stærstir í könnun MMR miðað við fylgi flokkanna í hinum könnununum. Reyndar gildir það líka um Bjarta framtíð og Flokk fólksins þó hvorugur komist inn á þing en sú könnun var gerð dagana 26. og 27. október.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mesta fylgið í könnun Gallup sem framkvæmd var dagana 23. til 27. október. Viðreisn og Vinstri græn mælast stærst í könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var dagana 22. til 25. október.

Ef skoðað er meðaltal allra kannananna sést að skipting atkvæðanna er sem hér segir:

  • Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 23,6%
  • Vinstri græn næst stærst með 18,6%
  • Samfylkingin í þriðja sæti með 14,5%
  • Miðflokkurinn fjórði stærstur með 10,0%
  • Píratar fimmti stærsti flokkurinn með 9,6%
  • Framsóknarflokkurinn sjötti stærsti flokkurinn með 8,9%
  • Viðreisn með 7,8%
  • Flokkur fólksins með 4,3%
  • Björt framtíð með 1,8%