Fullyrt er í Morgunblaðinu að forystumenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna hafi átt í viðræðum um mögulegt stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Í blaðinu er greint frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafi rætt málin og punktað niður á blað hvort að grundvöllur væri fyrir viðræðum.

Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, hefur verið gert viðvart um þessar viðræður. Til að rifja upp þá er Bjarni með formlegt stjórnarmyndunarumboð að svo stöddu.

Komnir yfir stærstu þröskuldana

Annað hljóð er slegið upp í Fréttablaðinu þar sem að fullyrt er að samkomulag hafi náðst milli Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um þau stóru mál sem að flokkarnir hefðu strandað á í fyrri viðræðum.

Nú stefni formenn flokkanna þriggja að því að skrifa stjórnarsáttmála. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu um hvort að hefja eigi viðræður við Evrópusambandið, ef að stjórnin nær fram að ganga.