Á fundi Flugmálafélags Íslands með forsvarsmönnum stjórnmálaflokkanna á fimmtudag kom fram að fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar vildu flugvöllinn í burt, en fulltrúar Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokks, Miðflokksins og Viðreisnar vildu halda flugvellinum svo þjónusta við landsbyggðina yrði ekki skerrt. Fulltrúi Pírata sagði flokkinn ekki hafa afstöðu til málsins.

Matthías Sveinbjörnsson forseti Flugmálafélagsins sagði fundinn hafa fyrst og fremst verið hugsaðan til að veita flugheiminum innsýn inn í stefnur og áherslur flokkanna í tengslum við flugmál.

„Miðflokkurinn var skýrastur í stefnu sinni í flugmálum, það er að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni, Neyðarbrautin ætti að vera opnuð að nýju, stuðningur við flugmenntun ætti að vera aukin, meiri fjármunir settir í fluginnviði úti á landi og styrkja ætti innanlandsflugsamgöngur með beinum hætti,“ sagði Matthías.

„Fleiri flokkar tóku í raun undir þetta, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, en svo tóku allir flokkar fyrir því að styrkja flugið og að flugmenntun ætti að vera hluti af menntakerfinu. Hins vegar voru skiptar skoðanir um Neyðarbrautina og ákvarðanir um lokun og þjónustuskerðingu.“

Fullyrðingar um engin áhrif lokunar reyndust rangar

Matthías segir gagnrýni Flugmálafélagsins á lokun Neyðarbrautarinnar hafi snúist um að ekki hafi verið hlustað á raddir sérfræðinga í málinu, sem hafi hrakið þær fullyrðingar að lokunin hefði engin áhrif eins og sagt var í aðdraganda lokunarinnar.

„Sérfræðingar bentu á að lokunin hefði mun meiri afleiðingar en menn hefðu gert sér grein fyrir og verið væri að fara á svið við alþjóðaviðmið í útreikningunum. Síðan hefur þetta verið staðfest af Alþjóðfaflugmálastofnuninni, og nú síðast ráðuneytinu sem tók undir gagnrýnina og viðurkenndi að ekki hefði verið unnið eins og best hefði verið kosið,“ sagði Matthías.

„Samfylkingin var klárlega skýrust í því að hún vildi flugvöllinn í burtu, en fulltrúi VG talaði á svipuðum nótum.“

Samfylkingin treg að byggja annan völl fyrst

Friðrik Pálsson formaður Hjartans í Vatnsmýrinni sem var einn gesta fundarins sagði það vera stefnu borgaryfirvalda, en þar eru Samfylking, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar í meirihluta, að flugvöllurinn skyldi fara hvað sem það kostaði.

„Það var hins vegar skýr stefna frá Sjálfstæðisflokknum og bæði Framsókn og Miðflokknum að þeir vildu hafa flugvöllinn þar sem hann er og töldu útilokað að hann væri eitthvað að fara, það væri alla vega ekki inni í myndinni fyrr en farið væri að byggja annan flugvöll,“ sagði Friðrik.

„Fulltrúi Samfylkingarinnar var hins vegar mjög treg að taka þátt í því orðalagi.“ Friðrik sagði það hafa verið afstaða flokksins þrátt fyrir að skýrt hafi komið fram að öryggishlutverk flugvallarins snerist ekki eingöngu um sjúkraflugið heldur einnig almannavarnir.

„Til dæmis var nefnt að þegar skelfingin gekki yfir Haítí á sínum tíma þá var eina leiðin til að koma vistum og hjálpargögnum til íbúa í gegnum flugvöllinn sem slapp við eyðileggingu af völdum jarðskjálftans,“ sagði Friðrik að hefði verið talað um í samhengi við að Íslendingar byggju hér á eldfjallaeyju sem hefði í gegnum söguna farið í gegnum ýmsar hörmungar.