Vinstri grænir myndu tapa þingmönnum í öllum kjördæmum nema Suðurkjördæmi, þar sem flokkurinn er þó aðeins með einn þingmann í dag. Þannig myndi flokkurinn tapa sex þingmönnum frá síðustu kosningum ef gengið yrði til kosninga nú.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu sl. fimmtudag er núverandi stjórnarmeirihluti kolfallinn ef gengið yrði til kosninga nú. Viðskiptablaðið hefur undir höndum niðurstöður Þjóðarpúls Capacent frá því í febrúar sl., brotið niður eftir kjördæmum, sem gerir það að verkum að hægt er að reikna út þingmannafjölda flokkanna. Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og VG, tapa samanlagt 13 þingmönnum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn og Samstaða bæta við sig átta þingmönnum hvor.

Ef Vinstri grænir eru skoðaðir sérstaklega þá tapar flokkurinn um 10% fylgi frá því í kosningunum 2009 og fengi nú kjörna átta þingmenn, sem er jafn mikið og Samstaða (flokkur Lilju Mósesdóttur) fengi skv. sömu könnum.

VG hlaut 14 þingmenn kjörna í alþingiskosningunum 2009. Flokkurinn er þó aðeins með 12 þingmenn á þingi í dag, þar sem þrír þingmenn hafa gengið úr þingflokknum frá kosningum og einn bæst við. Sem kunnugt er gengu þau Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason úr þingflokknum í vetur en áður hafði Þráinn Bertelsson gengið til liðs við þingflokk VG.

Samkvæmt Þjóðarpúlsinum tapar VG mestu fylgi í Reykjavíkurkjördæmi suður, eða 12% frá síðustu kosningum, og missir fyrir vikið einn þingmann. Flokkurinn missir minnsta fylgið í Reykjavíkurkjördæmi norður, eða 8% frá síðustu kosningum og einn þingmann af þremur.

Sterkasta vígi Vinstri grænna er sem fyrr NA-kjördæmi, sem jafnframt er kjördæmi formannsins, Steingríms J. Sigfússonar. Þar fengi flokkurinn í dag tæplega 21% fylgi, en tapar þó tæplega 9% fylgi frá síðustu kosningum og einum þingmanni. Rétt er að geta þess að Vinstri grænir leiddu kjördæmið í síðustu kosningum, en mælist nú þriðji stærsti flokkurinn þar.

Minnsta fylgið fær flokkurinn í Suðurkjördæmi, rétt rúm 7%, en í kosningunum 2009 fékk flokkurinn um 17% fylgi og einn þingmann. Sá þingmaður heitir að vísu Atli Gíslason þannig að Vinstri grænir eru í raun ekki með neinn þingmanna úr Suðurkjördæmi í dag.

Svipaða sögu er að segja í NV-kjördæmi, þar sem flokkurinn tapar um 11% fylgi frá síðustu kosningum og tveimur þingmönnum. Annar þeirra þingmanna er þó Ásmundur Einar Daðason, sem nú er genginn til liðs við Framsóknarflokkinn.