Á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem nú er haldinn í Reykholti hafa m.a. verið samþykktar fimm ályktanir sem snerta sérstaklega sveitarfélagsmál.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VG.

VG vill tryggja rekstrargrundvöll sveitarfélaga. „Sveitarfélög eru misvel í stakk búin til að veita sjálfsagða og nauðsynlega grunnþjónustu. Á næstu tveimur árum er meðal annars nauðsynlegt að auka framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna um 5 milljarða árlega. Á sama tíma verður gagnger endurskoðun að eiga sér stað á tekjuskiptingu vegna núverandi verkefna og tekjustofnum sveitarfélaga í heild sinni. Sveitarfélögin í landinu þola enga bið.“

Vinstri grænir vilja einnig að ríkið taki þátt í kostnaði vegna almenningssamgangna. Almenningssamgöngur séu ekki einkamál sveitarfélaga. Þau varði umhverfi og efnahag allra landsmanna. Ríkið verði að axla ábyrgð og taka þátt í kostnaði vegna þeirra. Lagasetning í þá veru eigi að vera forgangsmál á komandi vetri.

Flokksráð Vinstri grænna beinir því til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að gæta jafnræðis og veita öllum námsmönnum frítt í strætó óháð lögheimili.

VG vill samvinnu á forsendum sveitarfélaganna sjálfra. „Flokksráð Vinstri grænna hafnar hugmyndum um lögbindingu lágmarksstærðar sveitarfélaga. Íbúar eiga að hafa svigrúm og sjálfræði til að meta kosti og galla sameiningar við önnur sveitarfélög og ákveða með hvaða hætti samstarfi þeirra á milli skuli háttað. Flokksráðið telur brýnt að úttekt verði framkvæmd á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum þeirra sameininga sem hafa átt sér stað á undanförnum árum,“ segir í fréttarilkynningunni.

Forgangsröðum í þágu barna er Vinstri-grænum einnig ofarlega í huga. „Á tímum efnahagsþrenginga er sérstaklega mikilvægt að létta byrðar barnafjölskyldna. Menntun barna og þátttaka þeirra í íþrótta- og tómstundastarfi má ekki vera háð efnahag foreldra eða tímabundnum þrengingum í samfélaginu. Flokksráð Vinstri grænna hvetur því sveitarfélögin í landinu til að forgangsraða í þágu barnafjölskyldna.“