Vinstri græn eru andvíg aðild að Evrópusambandinu en í drögum að ályktun flokksráðsfundar segir að „framtíðarfyrirkomulag tengsla Íslands og ESB [þurfi] að ákveða á lýðræðislegan hátt í kjölfar vandaðrar og upplýstrar umræðu."

Flokksráðsfundur VG stendur nú yfir.

Kæra á aðgerðir Breta

Fyrir fundinn hafa verið lagðar tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum. Þar segir m.a. að gera þurfi sérstaka áætlun um hvernig Ísland hyggist snúa vörn í sókn „hvað varðar þann stórfellda skaða sem orðinn er á orðspori okkar erlendis," eins og segir í tillögunum.

„Móta ber áætlun um Ísland sem griðastað þar sem landið  verður skipulega boðið fram sem vettvangur fyrir sáttaferli og umræður. Ísland þarf áfram að leggja sitt af mörkum til neyðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Aðgerðir Breta gegn Íslendingum ætti að kæra og rekja til enda fyrir dómstólum, bæði beitingu hryðjuverkalaga og þær aðgerðir sem kollsigldu Kaupþingi."

Skera eigi niður ríkisútgjöld

Þá segir m.a. í tillögunum að dreifa þurfi skattbyrðinni á réttlátari hátt og skera um leið niður ríkisútgjöld, m.a. með sparnaði í rekstri stofnana, með því að skera niður hernaðarútgjöld og utanríkisþjónustu og með því að lækka laun æðstu ráðamanna og fella úr gildi eftirlaunalög byggð á sérréttindum.

Einnig segir í tillögunum að efla þurfi sjálfbæra framleiðslustarfsemi og verðmætasköpun í atvinnulífinu. „Meðal þeirra atvinnugreina sem þarf sérstaklega að leggja áherslu á eru sjávarútvegur, landbúnaður og matvælaiðnaður í heild sinni, ásamt ferðaþjónustu og útflutningsiðnaði. Þar að auki ber sérstaklega að styðja við smáfyrirtæki í umhverfisvænum rekstri, sprotafyrirtæki sem byggjast á nýsköpun og hátækni," segir m.a. í tillögum VG.

Tillögur VG má finna hér.