Ögmundur Jónasson og tveir aðrir þingmenn VG hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum þess efnis að verðtryggð lán beri aldrei hærri vexti en nemur 2%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki VG.

Þar kemur fram að með framlagningu frumvarpsins er ríkisstjórnin hvött til að taka stærri og róttækari skref til að létta greiðslubyrði fólks heldur en gert er í þeim tillögum til greiðslujöfnunar sem lagðar voru fram á Alþingi í gær.

„Við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu, óðaverðbólga og háir vextir, er það brýnt réttlætismál og raunverulegar kjarabætur fyrir lántakendur ef frumvarp VG nær fram að ganga,“ segir í tilkynningunni.   Í greinargerð frumvarpsins segir að nauðsynlegt sé að taka verðtryggingu lána í heild sinni til endurskoðunar.

„Þar til slíkt verður gert er afar mikilvægt að ná nú þegar fram þeirri lagabreytingu sem frumvarpið leggur til sem lágmarksvernd fyrir lántakendur verðtryggðra lána,“ segir í tilkynningu VG.

„Með þessu móti er lánskostnaður raunverulega lækkaður í stað þess að einungis sé lengt í snörunni eins og gert er með frestun afborgana eins og tillögur ríkisstjórnarinnar bera með sér.“ Frumvarpið í heild sinni má nálgast hér.