Þingflokkur Vinstri grænna hefur farið þess á leit við forseta Alþingis og forsætisnefnd að því erindi verði tafarlaust beint til Ríkisendurskoðunar að hafa frumkvæði að því að kanna með hvaða hætti stofnunin skuli nú koma sem endurskoðunar- og eftirlitsaðili að ráðstöfun þeirra miklu fjármuna sem nú eru komnir í ríkisins hendur með yfirtöku bankanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu þingflokks VG.

„Það er mat  þingflokks VG að óumflýjanlegt sé að Ríkisendurskoðun komi þegar að þeim þáttum sem á hennar verksviði eru og verða í framhaldinu,“ segir í tilkynningunni.

„Lýtur það bæði að endurskoðun þeirra banka sem stofnaðir hafa verið í eigu ríkisins sem og að endurskoðun þeirra móðurfélaga sem ríkið hefur yfirtekið og eru nú í höndum opinberra skilanefnda.“

Þá telur þingflokkur VG einnig mikilvægt að Alþingi búi þegar í stað þannig um hnúta að Ríkisendurskoðun geti sinnt þessu verkefni með fullnægjandi hætti og hafi eftir atvikum svigrúm til að ráða sér til aðstoðar virt alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki eða fá aðstoð annarra sérfræðinga á þessu sviði.

„Gríðarlegir almannahagsmunir eru í húfi og útilokað annað en að opinbert eftirlit og opinber endurskoðun komi til, þar með taldar eignayfirfærslur, milliuppgjör og fjárhagsleg skil við aðilaskiptin,“ segir í tilkynningu VG.