Ýmissa grasa kenndi á flokksráðsfundi VG í dag, meðal annars var samþykkt áskorun um að þingmenn og ráðherrar flokksins verði skjótar til að viðurkenna yfirlýsingar sjálfstæðishreyfingar nýrra ríkja.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem haldinn var í dag, 27. janúar 2018 samþykkti á fundi sínum eftirfarandi ályktanir um stuðning við sjálfstæðishreyfingar, um aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi, um skipun starfshóps um mótun stefnu gegn spilling.

Auk þess voru tvær ályktanir sendar áfram til sveitastjórnarráðs, annars vegar um aukið íbúalýðræði og hins vegar um breytingar á félagsþjónustu sveitarfélaga að því er fram kemur á vef VG .

Í ályktun flokksins um stuðning við sjálfstæðishreyfingar segir að flokkurinn skori á þingmenn og ráðherra VG að vera vakandi í stuðningi við sjálfstæðishreyfingar þjóða og skjótir til viðurkenningar, þegar þær lýsa yfir sjálfstæði.

Samþykkt var tillaga um að aðgerðaráætlun flokksins gegn einelti og kynbundnu ofbeldi verði endurskoðuð með hliðsjón af #metoo byltingunni og á að leggja fram nýja áætlun á fundi ráðsins í ágúst.  Jafnframt vill flokkurinn að semja aðgerðaráætlun um hvernig hann hyggist vinna að útrýmingu spillingar í íslensku samfélagi.