Í ársskýrslu Marels segir stjórnarformaður félagsins, Árni Oddur Þórðarson, að ljóst sé að vægi Íslands mun stórminnka á næstu árum í starfsemi fyrirtækisins og að sama skapi gjaldmiðlaáhætta félagsins, þar sem í dag er allt að fjórðungur gjalda í íslenskum krónum en lítill hluti tekna.

Stjórn Marels hefur tekið ákvörðun um umfangsmikla uppbyggingu starfsemi í Slóvakíu. Framleiðsluhúsnæði sem byggt verður er ámóta húsnæði Marels í Garðabæ og er ráðgert að það verði að fullu komið í notkun í ársbyrjun 2008 og að starfsmenn verði 200-300 talsins.

Fyrsta skrefið hefur verið stigið með leigu á minna húsnæði og framleiðsla
er hafin í því. Jafnframt var tekið yfir framleiðslufyrirtæki í Singapúr með 100 starfsmönnum á síðasta ári sem gefur fyrirtækinu tækifæri til að framleiða vörur þar með lægri útgjöldum á dollarasvæði. Bæði þessi verkefni eru unnin af stjórnendum Carnitech í nánu samstarfi við yfirstjórn félagsins.