„Ég er ekki sammála því að spákaupmenn ráði öllu á markaðnum," segir Gísli Hauksson framkvæmdastjóri GAM Management, sem rekur skuldabréfasjóði og gefur út GAMMA skuldabréfavísitöluna.

„Seðlabankinn hefur gefið það í skyn, bæði á síðasta peningastefnunefndarfundi sem og það sem ráða má af orðum Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra nú í dag á Reuters, að vextir muni halda áfram að lækka ef verðbólguþróun verður hagfelld. Verðbréfasjóðir, lífeyrissjóðir, almenningur sem og spákaupmenn hafa keypt skuldabréf að undanförnu í ljósi þessa," segir Gísli.

Í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa í dag kom fram að hækkun lengri verðtryggðra bréfa síðustu vikur hefði verið um 3,39% og styttri hækkuðu um 1,74%.Svo sagði að spákaupmenn væru allsráðandi á markaðnum og hefðu tekið stórar stöður í löngum ríkistryggðum bréfum og ýktu þar með kröfulækkun þeirra bréfa.

Vægi spákaupmanna ekki mjög mikið

Gísli segist ekki vera sammála þessu, að spákaupmenn léku þarna lykilhlutverk í þróun skuldabréfamarkaðarins.

„Í gögnum frá Lánasýslunni og Seðlabankanum að undanförnu kemur í ljós að verðbréfasjóðir hafi stækkað töluvert að undanförnu og skipting eigna milli lífeyrissjóða og bankastofnana hefur lítið breyst. Stærð skuldabréfamarkaðarins, sem er um 1.400 milljarðar króna, er með þeim hætti að vægi spákaupmenna getur aldrei orðið mjög mikið," segir Gísli.