„Beiðnina um greiðslustöðvun má einkum rekja til þungra áfalla byggingardeildar félagsins á síðustu misserum vegna viðskiptavina, sem hafa lent í greiðsluvanda," segir tilkynningu sem undirrituð er af Gunnari Ármannssyni, lögmanni félagsins.

VHE komst í fréttirnar í síðasta mánuði þegar sjónvarpsþátturinn Kveikur var með umfjöllun um GAMMA og Upphaf fasteignafélag. VHE var á starfstíma Upphafs fasteignafélags umsvifamesti framkvæmdaaðilinn í byggingum hundruða íbúða sem ráðist var í á höfuðborgarsvæðinu.

VHE er stærsta vélsmiðja landsins og er grunnrekstur félagsins og eiginfjárstaða þess traust.  Byggingardeild félagsins er innan við 20% af heildarumsvifum þess. Starfsmenn VHE hafa leitað leiða til að draga úr þessu tjóni, en vegna hægari umsvifa í hagkerfinu vegna covid19 varð ekki við það ráðið öðru vísi en að fá tímabundið greiðsluskjól frá lánardrottnum, ekki síst til að tryggja jafnræði þeirra."

Að því er fram kemur í tilkynningunni munu forsvarsmenn VHE freista þess að vinna með lánardrottnum við að endurskipuleggja greiðslur skulda félagsins þannig að það nái að standa við skuldbindingar sínar. Mun starfsemi fyrirtækisins að mestu verða óbreytt á greiðslustöðvunartímabilinu.

„Við þurfum að komast í gegnum þennan skafl sem þessar fordæmalausu aðstæður hafa átt þátt í að skapa," er haft eftir Unnari Hjaltasyni, aðaleiganda VHE í tilkynningunni. „Við þurfum að vernda störf okkar starfsmanna og viðurværi fjölskyldna þeirra, en starfsmennirnir eru nú um 250, en auk þess starfa fjölmargir undirverktakar fyrir VHE . Við þurfum að tryggja með sem bestum hætti að birgjar og aðrir lánardrottnar fái allir sitt og gæta þess að verðmæti glatist ekki. Með samstöðu, dugnaði, þolinmæði og skilningi starfsmanna, eigenda, birgja og kröfuhafa mun það takast“.