Endurgreiddur verður hluti virðisaukaskatts og vörugjalds af notuðum vélknúnum ökutækjum sem eru seld eða flutt úr landi fram til 1. apríl 2009, nái frumvarp ríkisstjórnarinnar þar um fram að ganga.

Í skýringum með frumvarpinu er því spáð að 5000 bílar verði fluttir úr landi á tímabilinu. Frumvarpinu var dreift á Alþingi í dag. Því er ætlað að greiða fyrir sölu notaðra bifreiða úr landi sem auka mun gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til skemmri tíma, jafnframt því að ýta undir það að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný.

,,Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs gæti orðið á bilinu 1,5 til 2,0 milljarðar króna," segir í skýringum frumvarpsins.

,,Þetta mat byggist á því að um 5.000 ökutæki verði flutt úr landinu á gildistíma laganna. Á móti kemur að þessi útflutningur ætti að liðka fyrir sölu þeirra bifreiða sem fluttar hafa verið til landsins, en ekki tollafgreiddar. Tekjur ríkissjóðs af þesum innflutningi verði þannig meiri en ella hefði orðið."