Gunnar Guðjónsson hefur verið ráðinn forstjóri Opinna kerfa og tekur við starfinu af Agnari Má Jónssyni sem hefur látið af störfum.

„Þetta er spennandi verkefni, sérstaklega miðað við efnahagsaðstæður,“ segir Gunnar í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir verkefnastöðuna góða þó lítillega hafi dregið saman í sölu á búnaði. Hann segir að á næstu misserum geri félagið ráð fyrir að heldur muni draga saman í sölu á búnaði til viðskiptavina.

Hins vegar verði þjónustusvið félagsins eflt sem muni mæta samdrætti á öðrum sviðum.

„Við erum vel undirbúin undir kreppuna,“ segir Gunnar og bætir því við að styrkur Opinna kerfa liggi í litlu eignarhaldi auk þess sem á þessu ári hafi verið hagrætt í rekstri félagsins.

Gunnar er rekstrarhagfræðingur að mennt með M.Sc. gráðu frá Strathclyde University og hefur starfað hjá félaginu í níu ár, nú síðast sem framkvæmdastjóri HP lausna og staðgengill forstjóra.