Glitnir og Kaupþing hafa fjármagnað sig með lánsfjárveitum frá Evrópu í stað þess að nota innlánsfé viðskiptavina.

Þá eru bankarnir tveir, ásamt Landsbankanum, efstir á lista yfir evrópska banka til að falla sé miðað við skuldatryggingaálag Bloomberg.

Þetta kemur fram í umfjöllum Bloomberg fréttastofunnar í dag þar sem fjallað er um efnahagsástandið á Íslandi og öðrum norðurlöndum.

„Ef lausafjárskortur er stór vandamál í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu, þá getur þú ímyndað þér hvernig það er í litlu hagkerfi eins og á Íslandi,“ segir Elisabeth Andreew hjá Nordea bankanum.

„Við höfum ráðlagt viðskiptavinum okkar að forðast krónuna í lengstu lög.“

Bloomberg segir íslensku krónuna hafa hrunið í vikunni og náð sjö ára lágmarki gagnvart dollar eftir að matsfyrirtækin Standard & Poor's og Fitch Ratings ráðlögðu fjárfestum að losa sig við gjaldeyrinn.

Í frétt Bloomberg er fjallað um fall krónunnar eftir að tilkynnt var um yfirtöku ríkisins á 75% hlut í Glitni.

„Þetta er hreinræktuð gjaldeyriskrísa,“ hefur Bloomberg eftir Carl Hammer, greiningaraðila hjá sænska bankanum SEB.

„Fjárfestar hafa misst tiltrú á fjármálakerfið og Seðlabankinn mun ekki getað komið hinum bönkunum til bjargar líkt og gert var með Glitni. Til þess hefur bankinn einfaldlega ekki fjármagn.“

Þá kemur fram að staða krónunnar sé sú þriðja versta í heimi síðustu tólf mánuði sé litið til þeirra 179 gjaldmiðla sem Bloomberg heldur utan um.

Hér má sjá umfjöllun Bloomberg.