„Við höfum verið skammaðir eins og svikarar," segir Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra í tölvupósti til formanna Icesave-samninganefnda Breta og Hollendinga hinn 10. júní sl. eða fimm dögum eftir undirritun Icesave-samninganna.

„Við áttum [hins vegar] von á þessu og munum lifa með því og trúum því enn að við höfum gert sanngjarna samninga," bætir hann við."

Viðskiptablaðið hefur fengið frá fjármálaráðuneytinu afrit af tölvupóstum sem fóru á milli samningamanna Íslands, Bretlands og Hollands, frá apríl og fram undir lok júlí. Í tölvupóstunum skiptast þessir aðilar meðal annars á upplýsingum um viðbrögð almennings og fjölmiðla heimafyrir við samningunum í byrjun júní.

Svo virðist sem hollensku og bresku samningamennirnir hafi viljað forðast fjölmiðlaumfjöllun í lengstu lög og skrifa þeir að samningarnir hafi fallið í skuggann á kosningunum til Evrópuþingins.

Hollenski samningamaðurinn tekur þó fram að samtök þeirra sparifjáreigenda sem áttu meira en hundrað þúsund evrur inni á Icesave hafi verið heldur hávær og neikvæð. Þau hafi viljað fá alla upphæðina bætta.

„Ég er hræddur um að þetta muni vekja einhverja athygli í fjölmiðlum og/eða á þinginu," skrifar Johan Barnard, forsvarsmaður hollensku samninganefndarinnar, til Indriða, hinn 10. júní.

Sem kunnugt er var frumvarp um Icesave-ríkisábyrgð lagt fram á Alþingi í lok júní. Það var afgreitt sem lög frá Alþingi í lok ágúst en áður samþykkti þingið fyrirvara við ábyrgðina.

Hollendingar og Bretar  þurfa að samþykkja fyrirvarana áður en fjármálaráðherra fær heimild til að veita ríkisábyrgð fyrir Icesave-lánunum.

Nánar er fjallað um þetta í Viðskiptablaðinu.