Viðskiptaráð Íslands kynnti í dag skýrslu um tvísköttun. Í skýrslunni fjallar Viðskiptaráð um gerð tvísköttunarsamninga og þá hagsmuni sem eru í húfi vegna mikilvægi þeirra í alþjóðaviðskiptum.

Að mati ráðsins hefur Ísland ekki gert nægilega marga tvísköttunarsamninga við önnur ríki og mikilvægt er að bæta úr því til að liðka fyrir fjárfestingum inn í landið og út úr því.

VÍ áréttar að gildir tvísköttunarsamningar séu ein af meginforsendum að viðskipti milli landa verði arðbær og að fyrirtæki staðsetji höfuðustöðvar sínar eða dótturfélög á Íslandi. Mikilvægi þess að ríki hafi yfir að ráða öflugu neti tvísköttunarsamninga verður því seint ofmetið.

Séu tvísköttunarsamningar ekki í gildi milli landa hafa þróast einhliða aðferðir til að koma í veg fyrir tvísköttun einstaklinga og fyrirtækja. Í skýrslunni eru þessar aðferðir reifaðar og lagt til að svokallaðri undanþáguaðferð verði beitt sem aðalaðferð af íslenskum skattayfirvöldum við að aflétta tvísköttun.

Vegna smæðar landsins geta raunhæf vandamál verið því tengd að fá önnur ríki til samningaviðræðna. Sökum þessa leggur Viðskiptaráð til að athugaðir verði möguleikar þess að óska viðræðna og fara út í þær í samfloti við önnur ríki.