Alfesca hefur gert samkomulag við ELL162 ehf., sem er eignarhaldsfélag í eigu Mohameds bin Khalifa Al-Thani sjeiks, um kaup eignarhaldsfélagsins á 850 milljónum hluta í Alfesca á genginu 6,45 kr. á hvern hlut. Um er að ræða 12,6% eignarhlut fyrir rétt tæpa 5,5 milljarða íslenskra króna.

ELL162 ehf. var stofnað sérstaklega utan um þessa fjárfestingu. Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Alfesca, segir eiginfjárstöðu Alfesca vera sterka og að reksturinn hafi gengið vel. Nú sé hins vegar snúin staða á matvælamarkaðnum og það séu að opnast ýmis tækifæri fyrir félög í góðri stöðu, líkt og Alfesca.

Ólafur segir að Alfesca hafi ákveðið að gefa út þau bréf sem stjórnin hafði heimild til, í því augnamiði að styrkja stöðu félagsins enn frekar og leita áfram að góðum tækifærum til frekari vaxtar. „Við höfum verið íhaldssamir með það hvað við höfum keypt og passað að félagið skili hluthöfum auknum verðmætum,“ segir Ólafur í samtali við Viðskiptablaðið.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .