Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Luca Lúkasi Kostiæ, Hjálmari Sveinssyni, Ævari Kjartanssyni og Eflingu-stéttarfélagi viðurkenningu Alþjóðahúss ,,Vel að verki staðið” fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi við athöfn í Alþjóðahúsinu í dag.

Viðurkenningin, sem nú er veitt í fimmta skipti, þjónar þeim tilgangi að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda. Veittar voru viðurkenningar fyrir lofsverða frammistöðu í þremur flokkum; til einstaklings af íslensku bergi brotinn sem hefur lagt sitt af mörkum til innflytjenda á Íslandi sem voru tveir að þessu sinni, til einstaklings af erlendum uppruna sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins og til fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka fyrir framlag til málefna innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Alþjóðahúsinu.

Hér eftir fara nöfn þeirra er hlutu viðurkenningu og rökstuðningur valnefndar með:

Luka Lúkas Kostiæ

Luka Lúkas Kostiæ er einn þeirra erlendu ríkisborgara sem hafa komið við sögu í íslenskri knattspyrnu og auðgað hana með framlagi sínu. Hann er eini íslenski knattspyrnuþjálfarinn sem leitt hefur landslið í 8-liða úrslitakeppni Evrópu. Knattspyrnusamband Íslands hefur í mörg ár beitt sér fyrir þátttöku í starfi á sínum vegum með það að leiðarljósi að knattspyrna er leikur án fordóma.  Það er því vel við hæfi að einn albesti sendiherra knattspyrnunnar hérlendis fái viðurkenningu Alþjóðahússins að þessu sinni.

Hjálmar Sveinsson

Hjálmar Sveinsson fær viðurkenningu Alþjóðahúss en hann hefur hefur lagt sig fram við að lýsa og túlka þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem eiga sér stað núna vegna alþjóðavæðingar og loftslagsbreytinga í starfi sínu sem dagskrárgerðarmaður á RÚV undanfarinn áratug. Hjálmar, sem var einn af stofnendum fréttaskýringaþáttarins Spegilsins, er hlutlaus samfélagsgagnrýnandi sem kemst að kjarna málsins.

Ævar Kjartansson

Ævar Kjartansson dagskrárgerðarmaður hefur sinnt málefnum innflytjenda hin síðari ár og reynt að vekja athygli á þeim möguleikum sem felast í margbreytileika fjölmenningarsamfélags. Í þáttunum Víðsjá og Vítt og breitt hefur Ævar látið raddir fólks af erlendu bergi brotið hljóma í útvarpi og vanið þannig hlustendur Rásar 1 við málfar þeirra sem lært hafa  íslensku á fullorðinsárum. Það sé liður í að efla umburðarlyndi miðaldra Íslendinga í garð aðfluttra.

Efling-stéttarfélag

Efling-stéttarfélag fær viðurkenningu Alþjóðahúss fyrir að leggja mikla áherslu á að sinna málefnum útlendinga en ríflega þriðjungur félagsmanna eru af erlendum uppruna, eða yfir 8000 starfsmenn af yfir 120 þjóðernum.  Þegar félagsmönnum með erlent ríkisfang tók að fjölga fyrir alvöru á árunum  2003-4  var mikið kapp lagt á að ná til þess stóra hóps erlendra launamanna sem kominn var inn í félagið á skömmum tíma, m.a. með útgáfu fréttablaðs á nokkrum tungumálum, kynningarfunda og námskeiðahalds, ásamt því að eiga gott samstarf við önnur félög og stofnanir.

Viðurkenning Alþjóðahúss, Vel að verki staðið, er tileinkuð Thor Jensen en hann flutti hingað til lands ungur að aldri, vann sig upp úr sárri fátækt og markaði rekstur fyrirtækja hans innreið tæknialdar í íslenskt atvinnulíf og hafði hann gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag á fyrri hluta 20. aldar. Landsbankinn er bakhjarl viðurkenningarinnar.