Lyfjafyrirtækið Pfizer vann fyrir skömmu mikilvægan sigur fyrir kínverskum dómstólum þar sem viðurkenndur var réttur fyrirtækisins yfir virka lyfinu í Viagra.

Í frétt BBC, sem Börsen tekur upp, kemur fram að með niðurstöðu sinni senda kínverskir dómstólar mikilvæg skilaboð um að hugverkaréttur sé virtur landinu en vestræn fyrirtæki hafa löngum kvartað yfir annmörkum á því.

Pfizer hóf málarekstur sinn 2004 þegar uppvíst var að kínversk fyrirtæki voru við það að hefja framleiðslu á virka efninu í Viagra. Þá úrskurðuðu kínverskir dómstólar að það væri heimilt. Nú hafa þeir snúið við niðurstöðu sinni.

Niðurstaðan núna er mikill sigur fyrir Pfizer sem á síðasta ári seldi Viagra pillur fyrir 1,65 milljarða dollara og er markaðurinn í Kína nokkuð stór. Viagra var kynnt fyrir kínverskum karlmönnum fyrir sex árum en sex mánuðum síðar sýndi rannsókn að 90% af þeim pillum sem seldar voru í Shanghai voru falskar eða byggðar á eftirlíkingum.