Umferðarstofa hefur hrint af stað viðamikilli auglýsingaferð sem nefnist 15, nafn sem vísar til þess að rannsóknir sýna að ekki þarf nema 15 mínútna svefn til að koma í veg fyrir slys af völdum þessa. Þá hefur verið opnuð sérstök heimasíða helguð átakinu, www.15.is , ásamt því að framleidd hefur verið fræðslumynd fyrir sjónvarp um hættu syfju og svefnleysis á akstur.

Ráðherra hefur dottað við stýri

„Ég hugsa að við höfum öll upplifað það að vera syfjuð við stýrið. Og ég hugsa að við höfum flest líka upplifað það að hafa sofnað við stýrið andartak. Hrokkið upp við það að bíllinn stefndi kannski útaf eða alla vega hrokkið upp – og vonandi í tíma áður en nokkuð alvarlegt gerðist. Þá er ég vitanlega ekki að tala um að menn sofi lengi, heldur bara örsvefn, þegar augun lokast í sekúndu, kannski eina, kannski tvær,” sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra í gær þegar hann opnaði vefsíðuna formlega í  á málþingi Umferðarstofu um syfju og akstur.

Samgönguráðherra nefndi einnig dæmi um reynslu sína af því að aka þreyttur og dottaði við stýrið en það hefði þó allt farið vel. Hann sagði málþingið þarft framtak og brýndi þátttakendur til að taka boðskap þess með sér og úthýsa syfju úr akstri. Hvíld væri eina ráðið ef syfja sækti að ökumanni, nema ef til vill að fá annan ökumann til að taka við stýrinu.

„Ég hef reynslu fyrir því að leggja sig á þennan hátt í 10 til 15 mínútur þegar syfjan hefur sótt á við akstur á ferðum mínum milli Reykjavíkur og Siglufjarðar,” sagði Kristján. „Þegar maður finnur að athyglin er ekki til staðar og augun þyngjast er eina vitið að hvílast. Aðeins þannig kemur maður í veg fyrir þá áhættu að valda sjálfum sér eða öðrum skaða eða tjóni.”

16 létust í tíu slysum vegna sofandi ökumanns

Á árunum 1998-2006 urðu 10 banaslys af völdum þess að ökumaður sofnaði undir stýri og í þeim létust 16 manns. Í þessum tilfellum leiddi rannsókn það í ljós að aðal orsök slysins var það að ökumaður sofnaði við akstur. Þessu til viðbótar voru 11 banaslys í umferðinni á sama tímabili þar sem svefn og þreyta voru orsakavaldar ásamt öðrum þáttum. Í þeim slysum létust 11 manns. Slysin geta þó verið fleiri og samkvæmt upplýsingum frá Umferðastofu er áætlað að svefn og þreyta sé fjórða algengasta örsök alvarlegra umferðarslysa.