Norræna fjölmiðlafyrirtækið Nordic Entertainment Group (NENT) hefur ákveðið að gera Íslendingum kleift að gerast áskrifendur að efnisveitunni Viaplay á fyrri helmingi næsta árs. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á vef félagsins þar sem jafnframt kemur fram að Viaplay verði þá í boði í öllum fimm Norðurlöndunum og að áskrifendur veitunnar séu nú 1,4 milljónir talsins.

Hægt verður að gerast áskrifandi í gegnum bein viðskipti við NENT og einnig í gegnum þriðja aðila. Nánari upplýsingar um verð og efnisval verða veittar síðar.

Haft er eftir Anders Jensen, forstjóri NSNT, í tilkynningunni að þetta sé rétti tíminn til að bjóða Íslendingum áskrift að Viaplay.  „Dreifing í gegnum Viaplay byggir á mjög hagkvæmri tækni, en Ísland er vel tengt, leiðandi í tæknimálum og býr yfir öflugu skapandi umhverfi, og  er þar af leiðandi tilvalinn staður fyrir Viaplay.“