Viðar Viðarsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknifyrirtækisins EJS, greindi frá því á starfsmannafundi í morgun að hann væri hættur störfum hjá félaginu og hefur Jón Viggó Gunnarsson verið ráðinn framkvæmdatjóri í hans stað en hann hefur verið framkvæmdastjóri lausnasviðs EJS.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Viðar að þetta væru að mörgu leyti eðlileg tímamót til að breyta til. Nýir aðila væru komnir að rekstri félagsins og ný stjórn hefði verið skipuð. Þarna hefðu því orðið ákveðin kaflaskipti sem hefðu ýtt á eftir þessum breytingum. Viðar tók fram að allt gerðist þetta í sátt og samlyndi en við kaup Skýrr á félaginu hvarf hann úr hluthafahópi þess. Aðspurður sagðist Viðar ætla að taka sér frí á næstunni en hann væri að skoða ýmsa athyglisverða möguleika í framhaldinu.