Tvöföldun Suðurlandsvegar frá Litlu kaffistofu að Hveragerði og jarðgöng undir Vaðlaheiði eru meðal þeirra framkvæmda sem felast í viðauka við samgönguáætlun 2007-2010, sem kynntur var í dag.

Gert er ráð fyrir að báðar þessar framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2009. Þá felur viðaukinn einnig í sér að framkvæmdum við tengivegi víða um land verður flýtt, auk tiltekinna framkvæmda við hafnir og flugvelli.

Alls nemur áætlaður framkvæmdakostnaður þessara framkvæmda um ellefu milljörðum króna.

Í kjölfar ákvörðunar um niðurskurð þorskkvótans ákvað ríkisstjórnin á síðastliðnu sumri að grípa til mótvægisaðgerða í formi framkvæmda í samgöngumálum til að draga úr áhrifum fyrirsjáanlegs aflasamdráttar.

Tilkynnti ríkisstjórnin flýtingu framkvæmda að upphæð 6.500 m.kr. Í ljósi svo mikilla breytinga á samgönguáætlun þótti nauðsynlegt að gera viðauka við samgönguáætlun 2007 – 2010, sem samþykkt var á Alþingi í mars 2007, og gera þar með grein fyrir breytingum á einstökum liðum áætlunarinnar. Viðauki þessi er nú kynntur og verður hann lagður fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu nú á vorþingi.