VÍB, Eignarstýringarþjónusta Íslandsbanka, hefur verið valin fremst meðal aðila í eignarstýringarþjónustu á Íslandi af breska fjármálatímaritinu World Finance. Í tilkynningu frá bankanum segir að tímaritið hafi metið helstu aðila í eignastýringarþjónustu hér á landi og að VÍB hafi orðið hlutskarpast í þeirri úttekt.

Meðal þeirra sem hljóta einnig viðurkenningu World Finance eru Danske Bank, JP Morgan í Lúxemborg og DNB Asset Management í Svíþjóð. World Finance horfir til þátta á borð við fjárfestingastefnu, mat á árangri í eignastýringu, gegnsæi og áhættumat, árangur og ávöxtun og upplýsingagjöf til viðskiptavina og fræðslustarf.

Í tilkynningunni er haft eftir Stefáni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra VÍB, að þetta sé mikilvæg viðurkenning fyrir það uppbyggingarstarf sem starfsfólk VÍB hafi haft að leiðarljósi undanfarin ár.