VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, og Arev verðbréfafyrirtæki hafa stofnað hlutafélagið Eldey TLH hf. sem mun fjárfesta í fyrirtækum sem starfa í afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar. Félagið verður stýrt af Hrönn Greipsdóttur og er ætlunin að byggja upp eignarhluti í sjö til tíu fyrirtækjum.

Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VÍB, er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag þar sem hún ræðir stofnun félagsins og framtíðaráform þess. „Félagið fjárfestir í af­þreyingarhluta ferðageirans og ætlar að bygggja upp eignarhluti í sjö til tíu fyrirtækjum sem eru með góða rekstrarsögu og jákvæða EBITDU. Þetta er því ekki sprotasjóður,“ segir Elín. „Maður hefur séð mörg dæmi um fyrirtæki í þessum geira sem hafa verið í rekstri í upp undir tuttugu ár og séð síðan gríðarlega veltuaukningu á síðustu þremur til fimm árum. Þá eru margir stjórnendur þessara fyrirtækja sem finna fyrir þörf fyrir því að fá inn nýja hluthafa, ráða formlega utanað­ komandi framkvæmdastjóra og gera breytingar á rekstrinum. Það er það sem þessu félagi er ætlað að vera. Þarna er einstakt tækifæri til að fjárfesta í vaxtargeira en að sama skapi er þetta mjög þarft í að þróa og þroska þessi félög.“

Þegar félagið hefur náð ákveðinni stærð er stefnan að skrá það á markað en á þessu stigi er um framtaksfjárfestingu að ræða. Nú þegar er búið að fara í fyrstu tvær fjárfestingarnar en það er annars vegar 30% hlutur í Norðursiglingu á Húsavík og 17% hlutur í félaginu Gufu sem á Fontana á Laugarvatni.

Í stjórn félagsins sitja:

Sigríður Hrólfsdóttir, stjórnarformaður Símans

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, fjárfestir

Sveinbjörn Indriðason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia

Arnar Þórisson, fjárfestir

Nánar er rætt við Elínu Jónsdóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .