*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 7. janúar 2014 16:03

VÍB í samstarf við fjármálarisa

VÍB fer í samstarf við BlackRock, stærsta eignastýringaraðila heims.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, hefur undirritað samstarfssamning við BlackRock, stærsta eignastýringaraðila heims. Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að með samstarfinu aukist enn frekar fjölbreytni vöru- og þjónustuframboðs VÍB á sviði eignastýringarþjónustu á erlendum mörkuðum. 

„BlackRock býður mjög fjölbreytt úrval vöru og þjónustu á sviði eignastýringar sem spannar sex heimsálfur, hlutabréfasjóði, skuldabréfasjóði, hrávörusjóði, fasteignir og aðra sérhæfðari sjóði sem henta fagfjárfestum sérstaklega vel. Vegna fjármagnshafta gefst einungis viðskiptavinum sem eiga erlendar eignir eða hafa heimild til endurfjárfestingar í erlendum verðbréfum kostur á að fjárfesta í vörum BlackRock. Samstarfið er liður í stefnu VÍB að bjóða viðskiptavinum, sem í dag eiga erlendar eignir, sterkt vöru og þjónustuframboð, sem mun vonandi sem fyrst nýtast öllum viðskiptavinum VÍB þegar fjármagnshöft verða afnumin,“ segir í tilkynningu frá VÍB. 

BlackRock er stærsta eignastýringarfyrirtæki heims með um 3.800 milljarða Bandaríkjadala í stýringu og starfsemi í 30 löndum. Starfsmenn BlackRock eru yfir 10 þúsund talsins en margir af stærstu lífeyrissjóðum og tryggingafélögum heims nýta eignastýringarþjónustu BlackRock. 

Stikkorð: VÍB