Viðbótarlífeyrissparnaður hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Útskriftarnemi úr fjármálahagfræði við Háskóla Íslands kannaði hvort vöxtur þess sparnaðarforms kynni að hafa áhrif til minnkunar á annan sparnað.

Ólafur Þórisson útskrifaðist með M.Sc. gráðu í fjármálahagfræði nú í vor. Lokaritgerð hans snerist um að kanna hvort viðbótarlífeyrissparnaður ryddi burt öðrum frjálsum sparnaði. „Ég leit fyrst og fremst til séreignalífeyrissparnaðar, sem hefur vaxið mjög mikið. Einnig kannaði ég hvort sá sparnaður hefði rutt burt öðrum sparnaði,“ segir Ólafur.

Séreignalífeyrissparnaður er valkvæður og er dreginn af launamönnum mánaðarlega, sem fá síðan mótframlag frá atvinnurekanda. „Samkvæmt tölum frá Ríkisskattstjóra greiða 57% þeirra, sem greiða skylduframlag í lífeyrissjóð, einnig í séreignarlífeyrissjóð, en þá borgar launamaður 4% aukalega ofan á skyldusparnaðinn og fær 2% mótframlag atvinnugreiðanda samkvæmt kjarasamningi.

Þetta gildir fyrir flestar starfsstéttir með fáeinum undantekningum sem fá hærra mótframlag. Kostirnir við þennan sparnað eru mótframlag launagreiðanda, að launþegar fresta skattgreiðslu af framlaginu í sparnaðinn sem og að einungis tekjuskattur er tekinn af sparnaðinum við úttöku hans. Fjármagnstekjuskattur er ekki tekinn af þessum sparnaði,“ segir hann.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .