Glitnir tilkynnti í morgun um viðbótarútgáfu sérvarinna skuldabréfa við stærri útgáfu, sem átti sér stað í mars á þessu ári.

Þá voru gefnir út og skráðir í Kauphöllina tveir flokkar, annars vegar 40 milljarðar á gjalddaga árið 2051 og hins vegar 16 milljarðar á gjalddaga árið 2050. Um ræðir sérvarin skuldabréf, með lánshæfismatið Aaa frá Moody's, sem eru varin með veði úr lánasafni sem samanstendur af íslenskum húsnæðislánum.

Viðbótarúgáfan nú nemur samtals 9,2 milljörðum króna. Skiptist hún þannig að 5,1 milljarðar falla undir fyrri flokkinn á gjalddaga 2051 og 4,1 milljarðar í seinni flokkinn, sem er á gjalddaga árið 2050.

Um ræðir sérvarin skuldabréf, sem eru varin með veði úr lánasafni sem samanstendur af íslenskum húsnæðislánum.

Útgáfan nú, þeir 9,2 milljarðar sem koma til viðbótar, er einnig varin með lánasafni íslenskra húsnæðislána, en hluti þess er með veðhlutfall yfir 90%. Ástæðan fyrir því háa veðhlutfalli er sú að verðbólga hefur hækkað á sama tíma og húsnæðisverð hefur staðið í stað eða lækkað. Þar af leiðandi hækkar veðhlutfallið. Meðal veðhlutfall undirliggjandi eigna lánasafnsins í heild stendur nú í 72%.

Útgáfan viðhélt þrátt fyrir þessar breytingar lánshæfismati sínu frá Moody's, sem var eins og áður hefur komið fram Aaa.