Keith Hamill, stjórnarformaður Moss Bros, hefur brugðist ókvæða við andspyrnu nokkurra meðlima fjölskyldnanna tveggja sem stofnuðu félagið við óformlegu tilboði félags á vegum Baugs og fleiri fjárfesta, og kallar viðbrögð þeirra „furðuleg“ og „skaðleg“, að því er fram kom hjá Daily Telegraph í gær.

Hamill segir yfirlýsingar fjölskyldumeðlimanna gríðarlega skaðlegar og ljóst sé að þeir eigi gífurlega erfitt með að gera sér grein fyrir að þeir eigi ekki lengur fyrirtækið.

„Þegar menn eiga hagsmuna að gæta í félagi er ekki eðlilegt að gefa út yfirlýsingar sem níða það niður. Áhrifin á orðspor fyrirtækisins eru neikvæð og áhrifin á stjórnendur eru umtalsverð,“ segir hann.