Í upphafi árs voru menn að undrast hina miklu hækkun hlutabréfsverðs árið 2004 en þá hækkaði Úrvalsvísitalan um 58,9%. Enginn átti von á að áframhald yrði á hækkuninni sem orðið hefur raunin en nú á síðasta degi ársins stefnir allt í það að Úrvalsvísitalan hækki yfir 50% þrjú ár í röð.

Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins á þessu ári er ítarlegur annáll íslensks viðskiptalífs og fréttaskýringar um helstu atburði.

Kauphöllin

Árið sem nú er að renna sitt skeið var viðburðaríkt fyrir mörg af stærstu félögunum í Kauphöllinni. Úrvalsvísitalan hefur fyrir síðasta viðskiptadaginn hækkað um 64,4% yfir árið og er það þriðja árið í röð sem vísitalan hækkar í kringum 60%. Að neðan fylgir stutt yfirlit yfir helstu atburði þeirra félaga sem koma til með að mynda úrvalsvísitöluna á fyrri hluta næsta árs.

Stærsta skráða fyrirtækið í Kauphöll Íslands, KB banki, yfirtók Singer & Friedlander að fullu á árinu og eftir kaupin varð Bretland mikilvægasta markaðssvæði KB banka ásamt Danmörku og Íslandi. KB banki hækkaði um 67% á árinu en markverðasta breytingin milli daga var á milli 16. og 17. nóvember síðastliðinn þegar bréf félagsins hækkuðu úr 600 krónum á hlut upp í 650 krónur eða um 8,3%.

Einkavæðing

Árið 2005 var merkilegt í sögu einkavæðingar á Íslandi, því ríkisvaldið seldi Landssímann á árinu, eftir sex ára meðgöngu einkavæðingarnefndar. Um var að ræða stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar, enda nam söluverð 98,8% hluta ríkisins 66,7 milljörðum króna. Kaupandi var félagið Skipti ehf., en í því eru Exista hf., Kaupþing banki hf., Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi - lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Samvinnulífeyrissjóðurinn, MP Fjárfestingarbanki, og Imis hf. Þá var Lánasjóður landbúnaðarins seldur Landsbanka Íslands, fyrir 2.653 milljónir króna, auk þess sem ríkið seldi síðasta hlut sinn í Flugskóla Íslands fyrir sjö milljónir króna.

Útrásin

Er Jón Ásgeir Jóhannesson andlit íslensku útrásarinnar? Ekki er óeðlilegt að slíkar vangaveltur komi upp þar sem hann var fyrstur til að loka stórum samningum erlendis. Í upphafi ársins gekk hann frá sínum stærsta samningi þegar yfirtökutilboð Baugs í Big Food Group var lokið. Við það stækkaði Baugur til mikilla muna og urðu starfsmenn félagsins um 50 þúsund talsins, verslanir 2.400 og samanlögð velta fyrirtækjanna fór yfir 800 milljarða króna sem var nálægt landsframleiðslu Íslands á þeim tíma.