Undirfatakeðjan Victoria's Secret og snyrtivörusmásalinn Bath & Body Works hafa undanfarna þrjá áratugi verið undir sömu regnhlíf hjá móðurfélaginu L Brands. Félögin voru aðskilin í síðustu viku og eru nú skráð á hlutabréfamarkað vestanhafs sem tvö sjálfstæð fyrirtæki.

Hlutabréf Victoria's Secret voru greidd út til hluthafa móðurfélagsins þann 3. ágúst. Hlutabréfaverð undirfatakeðjunnar frægu hefur á þeim tíma hækkað um meira en 25%. Fyrirtækið hafði hækkað um 16% í dag þegar fréttin var skrifuð.

Hækkunin kann að skýrast af verðmötum banka á borð við Morgan Stanley sem gefur tískumerkinu verðmatsgengið 76 dali á hlut, samkvæmt frétt MarketWatch . Til samanburðar stendur gengi Victoria's Secret nú í 67 dölum, 13% undir verðmatsgenginu. Greinandi Morgan Stanley lýsti rekstrarbata undirfatakeðjunnar sem „trúverðugri endurkomu“.

Stefnubreyting farin að skila árangri

Victoria's Secret hefur verið með stærstu hlutdeildina á bandaríska undirfatamarkaðnum í nokkurn tíma en forskot fyrirtækisins hefur minnkað hratt undanfarin ár. Markaðshutdeildin hefur lækkað jafnt og þétt síðustu fjögur ár en hún stóð í rúmlega 20,5% í byrjun ársins, samanborið við 32,7% árið 2016.

Victroia's Secret tilkynnti um stefnubreytingu í júní, sem fól meðal annars í sér nýju sendiherrateymi með aðgerðasinnum á borð við bandarísku fótboltakonunni Megan Rapinoe. Einnig skipaði fyrirtækið nýja sjö manna stjórn, en þar af eru sex konur.

Þetta eru ekki einu breytingarnar hjá Victoria's Secret en fyrirtækið kynnti aftur til leiks vinsælu sundfatadeildina sína og lokaði afkastaminni verslunum. Tískufyrirtækið hefur einnig byrjað að selja meðgöngu- og aðhaldsföt (e. shapewear), sem það leit ekki við í fyrri tíð.

Samkvæmt WSJ er tískumerkið byrjað að uppskera fyrir þessa nýju stefnu. Sala fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi var meiri en á sama tímabili árið 2019, þrátt fyrir að 241 verslun keðjunnar hafi verið lokað á síðasta ári, útgjöld til markaðsmála lækkuð og auðvitað gætir enn áhrifa kórónaveirunnar. Rekstrarframlegð jókst úr 1% árið 2019 í 15% á fyrsta fjórðungi 2021, en fyrirtækið hefur ekki verið jafn arðbært frá árinu 2016, síðasta vaxtarári sínu.