„Við ætlum að leggjast undir feld og skoða hvort við ætlum að áfrýja dómnum,“ segir Andri Árnason, lögmaður Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Eins og greint var frá fyrr í dag sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur Seðlabankann af kröfu Más um að kjaraskerðing hans í febrúar árið 2010 verði felld úr gildi. Úrskurður kjararáðs á þessum tíma fól í sér að dagvinnulaun Más mættu ekki verða hærri en laun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þau voru um það leyti 935 þúsund krónur. Heildarlaun Más lækkuðu við þetta um 300 þúsund krónur.

Andri segir í samtali við vb.is niðurstöðuna í dag áhugaverða í ljósi þess að dómurinn telji það sé ekki sannað að fimm ára skipunartími embættismanna jafngildi uppsagnarfresti. Már var skipaður seðlabankastjóri um mitt ár 2009 til fimm ára. Skipunartími hans rennur út eftir tvö ár.

„Við byggðum á því að á þessum fimm ára skipunartíma felist ákveðin vernd. En dómurinn taldi að Már nyti ekki þessarar verndar eins og þeir sem eru með uppsagnarfrest,“ segir Andri og bætir við að ekki hafi reynt á skipunartímann og hvaða réttindi fylgi honum.