Í umræðum um lífeyrissjóði er gjarnan vikið að hlutverki þeirra og allt frá hruni hefur mikið verið rætt um aðkomu þeirra varðandi endurreisn atvinnulífsins hér á landi. Þá er í umræðunni að lífeyrissjóðir komi að hinum ýmsu framkvæmdum á vegum hins opinbera, t.d. uppbyggingu sjúkrahúss, hjúkrunarheimila og vegaframkvæmda.

Aðspurður um þetta segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrisjóðanna, að lífeyrissjóðir eigi að hafa hlutverk í endurreisnarstarfinu og hafi það í raun. Hann nefnir Framtakssjóð Íslands í því sambandi.

„Ég tel að lífeyrissjóðirnir hafi sýnt ákveðið frumkvæði með stofnun Framtakssjóðsins, sem ætlað er að vera nokkurs konar björgunarsjóður og hann er þegar farinn að virka sem slíkur,“ segir Hrafn í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Framtakssjóðurinn á að taka við fyrirtækjum sem m.a. hafa lent í gjörgæslu hjá bönkunum eða átt í öðrum erfiðleikum, koma þeim yfir erfiðasta hjallann og síðan að koma þeim á hlutabréfamarkað með því að selja þau aftur. Honum er aðeins ætlað að starfa á meðan við erum að komast út úr fjármálakreppunni. Lífeyrissjóðirnir hafa engan áhuga á því að eignast öll fyrirtæki í landinu, þvert á móti. Við viljum hins vegar vera virkir þátttakendur á fjármálamarkaðnum með öðrum fjárfestum, innlendum og erlendum.“

En hvað með aðkomu sjóðanna að verkefnum á borð við vegaframkvæmdir, hátæknisjúkrahús og fleira sem menn kalla samfélagsleg verkefni?

„Krafa um slíkt byggist að miklu leyti á ástandinu í þjóðfélaginu og því að ríkissjóður getur ekki skuldsett sig frekar. Þá hafa stjórnvöld óskað eftir því að lífeyrissjóðirnir komi að ýmsum fjárfrekum atvinnuskapandi verkefnum, t.d. byggingu nýs Landspítala,“ segir Hrafn.

„Við undirrituðum viljayfirlýsingu um að koma að spítalaverkefninu í fyllingu tímans. Það sama má segja um vegaframkvæmdir en þær hugmyndir strönduðu á þeim vaxtakjörum sem í boði voru af hálfu ríkisins.“

En er ekki þunn lína á milli þess sem kallast samfélagsleg ábyrgð og þess að ávaxta fé með sem bestum hætti?

„Við ætlum okkur ekki að lána ríkinu með niðurgreiddum vöxtum. Við ætlum að hagnast á því sem við erum að gera, það er okkar verkefni. Þetta er allt vandmeðfarið en við verðum að skilja þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu í dag. Við viljum koma að endurreisninni og annarri uppbyggingu en með engum hætti slaka á ávöxtunarkröfu okkar," segir Hrafn.

Nánar er rætt við Hrafn í viðtali í Viðskiptablaðinu. Hrafn mun láta af störfum nú í sumar eftir 36 ára starf. Í viðtalinu fer Hrafn yfir árangur sjóðanna á þessum tíma, gagnrýni á störf sjóðanna fyrir bankahrun, umræðu um hlutverk þeirra og stjórnskipan sem og umdeilda ávöxtunarkröfu sjóðanna sem verið hefur í umræðunni.