Sem kunnugt er þá eru forsvarsmenn Samherja sakaðir um mútugreiðslur til ráðamanna í Namibíu í skiptum fyrir kvóta. Þegar málið kom upp í síðasta mánuði fékk Samherji alþjóðlegu lög­manns­stof­una Wikborg Rein til að rannsaka það. Í Þorláksmessubréfi til starfsmanna Samherja, sem Björgólfur Jóhannsson forstjóri sendi í morgun, kemur fram að rannsókninni miði ágætlega.

„Ég veita a ð sum ykkar vildu að Samherji svaraði ásökunum á hendur fyrirtækinu af meiri krafti," skrifar Björgólfur. „Ekki velkjast í nein­um vafa um að við mun­um leiðrétta all­ar rang­færsl­ur um fé­lagið. Við erum bara rétt að byrja. Sem bet­ur fer hef­ur þetta mál ekki haft telj­andi áhrif á rekst­ur­inn og það er fyrst og fremst ykk­ur að þakka. Það er vöxtur í sölunni og veiðar og vinnsla ganga vel. Þá hafa samstarfsaðilar okkar hér heima og erlendis staðið með félaginu. Það er baráttuhugur í stjórnendum Samherja á öllum vígstöðvum og við erum sannfærð um að framtíð fyrirtækisins sé björt."

Tugmilljóna tjón í óveðrinu

Í Þorláksmessubréfinu greinir Björgólfur frá því að fjárhagslegt tjón Samherja vegna óveðursins, sem skall á 10. desember, hlaupi á tugum milljóna.

„Rafmagnsleysið í kjölfar veðurofsans varð þess valdandi að öll vinnsla okkar á Dalvík lá niðri í fimm daga og hleypur tjón vegna þess á tugum milljóna króna," segir Björgólfur. „Hins vegar tókst að afstýra tjóni vegna hráefnis og hluti starfsmanna á Dalvík færði sig yfir til Akureyrar þar sem við jukum framleiðsluna tímabundið meðan það var rafmagnslaust á Dalvík.

Blessunarlega varð ekkert tjón á tækjabúnaði og skipum. Vinnsla hófst svo aftur á Dalvík síðastliðinn þriðjudag. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til viðbragðsaðila fyrir þeirra óeigingjarna starf í kjölfar rafmagnsleysisins. Ég vil jafnframt þakka þeim starfsmönnum, sem færðu sig tímabundið til Akureyrar, alveg sérstaklega fyrir."

Bréf Björgólfs má lesa hér .